Fræjum sáð

Hugsaðu þér tómatplöntu. Á heilbrigðri plöntu geta vaxið yfir hundrað tómatar. Til þess að eignast tómatplöntu með öllum þessum aldinum, þarftu að hafa lítið, þurrkað fræ. Fræið er ekkert líkt tómatplöntu. Það bragðast ekki einu sinni eins og tómatplanta. Ef þú vissir ekki betur þá tryðir þú því tæplega að það gæti nokkru sinni orðið að tómatplöntu. En segjum nú svo að þú sáir þessu fræi í frjóan jarðveg, vökvir það og látir sólina verma það.

Þegar fyrsta litla spíran gægist upp úr moldinni, dettur þér ekki í hug að traðka á henni og segja: „Þetta er engin tómatplanta." Nei, þú horfir á spíruna og segir: „Að hugsa sér! Hún er að koma upp," og þú fylgist fagnandi með vexti hennar og heldur áfram að vökva plöntuna og sjá um að hún fái áburð, ljós og næga umhirðu. Með því eignast þú tómatplöntu með meira en hundrað girnilegum tómötum — og — allt byrjaði þetta með litla fræinu.

Þessi samlíking er sambærileg og þegar þú skapar sjálfum þér nýja reynslu, langar til að gera eitthvað uppbyggilegt og blómstra sem manneskja. Jarðvegurinn sem þú sáir í er undirvitund þín. Fræið er nýju aðstæðurnar, fullyrðingin. Nýja reynslan felst öll í þessu örsmáa fræi (fullyrðingu). Þú vökvar það með jákvæðum staðhæfingum. Þú lætur sólskin jákvæðra hugsana verma það. Þú reytir burt illgresið með því að bægja burt þeim neikvæðu efasemdum sem gera vart um sig hjá þér. Þegar þú kemur auga á fyrstu litlu spíruna, þá traðkarðu ekki á henni og segir: „Þetta er ekki nóg! " Þess í stað horfirðu á þennan fyrsta vísi að árangri og segir fagnandi: „Að hugsa sér! Þetta er allt að koma. Þetta ætlar að takast!" og þú fylgist með sprotanum vaxa og verða að kraftbirtingu óska þinna.

Úr bók Louise L. Hay: Hjálpaðu sjálfum þér.

 


Vinun ehf

  • Silungakvísl 14
  • 110 Reykjavík
  • Sími 578-9800 & 820-5768

Samfélagsmiðlar

Hafa samband

578-9800
vinun@vinun.is